Image Image Image Image Image
Scroll to Top

To Top

Verk

Toppstöðin

DLD er staðsett í Toppstöðinni – húsi hugvits og verkþekkingar.  Toppstöðin er frumkvöðlasetur rekið af grasrótarsamtökum sem kviknuðu eftir efnahagshrunið og opnuðu í desember 2009.

Toppstöðin í hjarta Elliðaárdalsins
Dagný Bjarnadóttir – úr skýrslu til Reykjavíkurborgar árið 2013

Toppstöðin var olíu- og kolakynnt varaflstöð reist sökum bráðrar þarfar fyrir raforku á árunum eftir seinni heimstyrjöldina og tekin í notkun árið 1948. Upphaflega framleiddi stöðin 7,5mW en var stækkuð tvívegis, fyrst árið 1959-1960 og síðan 1964-1966. Hún gegndi mikilvægu hlutverki fram á 8. Áratuginn, aðallega sem raforkustöð þegar mest álag var á kerfinu yfir vetrarmánuðina, en einnig til að skerpa á heitavatninu á mestu kuldatímum. Notkun stöðvarinnar lagðist að mestu leiti af eftir 1980. 1

Húsið er stálgrindahús hnoðað saman á sama hátt og Eifellturninn í París og sennilega eitt fárra ef ekki eina uppistandandi stálgrindahús af þeirri gerð á landinu. Innviðir hússins eru nokkurnvegin óbreyttir frá því það var reist og vélakosturinn frá því fyrir stríð eru einstakar minjar. Stöðin er að öllum líkindum elsta gufuaflstöð á landinu. Staðsetning hússin á bökkum Elliðaár hefur væntanlega verið sökum þess að kælivökva fyrir vélarnar var dælt upp úr ánni. Upphaflega stóðu einnig tveir stórir olíutankar norðan við húsið, en kolageymslan var hluti af byggingunni í suðurenda hússins.

Í skipulagi Elliðaárdalsins frá 1994 er gert ráð fyrir niðurrifi hússins, og er sú staða óbreytt í gildandi Aðala-og deiliskipulagi. Asbest plötur í útveggjum er líklega ástæða þess að húsið var ekki rifið á sínum tíma, þegar ákveðið var að það ætti að víkja. En bak við núverandi járnklæðningu leynist mun fallegra hús, þar sem búið er að hylja mjög marga glugga hússins og stílhreinn arkitektúr þess fær ekki notið sín.

Rafstöðvarsvæðið í heild sinni er mjög merkilegt svæði í sögulegu samhengi og tengist tækni, hugviti og rafvæðingu frá upphafi byggðar í Reykjavík. En í Árhólmanum á móts við Toppstöðina eru varðveittar minjar frá tímum Innréttinganna, en þær ásamt húsinu í Aðalstræti 10 eru nánast einu minjarnar sem hafa varðveist um Innréttingarnar í og við Reykjavík. 2 Þófarmyllunni, litunar -og sútunarhúsinu frá tímum Innréttinga Skúla Magnússonar árið 1751 var fundin staður í Elliðaárdalnum meðal annars vegna þess að sú starfsemi þurfti mikið rennandi vatn. Helstu mannvirki Innréttinganna í Reykjavík voru vefsmiðjur þeirra við Aðalstræti, en eitt af mörgum markmiðum innréttinganna fólst í að verksmiðjuvæða ullarvinnslu á landinu. Hugmyndafræði Innréttinganna var kannski ekki svo frábrugðin hugmyndafræði Toppstöðvarinnar að nýta hugvit og þekkingu til að skapa ný atvinnutækifæri. Það er áhugavert að slík starfsemi hafi einmitt verið á þessari sömu þúfu og það er von okkar sem starfa í húsinu að áfram megi varðveita sögulegar minjar þess, í upprunalegu samhengi, samhliða því að efla skapandi starfsemi hússins.

1 heimild: Elliðaárdalur Land og saga bls.101 2 heimild: Elliðaárdalur Land og saga bls 74-78
Hér má sjá skýrslu um starfsemi Toppstöðvarinnar frá árinu 2009-2013