Image Image Image Image Image
Scroll to Top

To Top

Verk

On 22, Sep 2015 | No Comments | In | By Dagný

Norrænahúsið

DLD ásamt Hildi Gunnarsdóttur arkitekt skiluðu inn tillögu í hugmyndasamkeppni um umhverfi Norrænahússins.
Aðstoð: Andri Snær Magnason rithöfundur, Heiðar Smári Harðarson nemi lbhí, Sigurdur Gunnarsson  verkfræðingur Dr.-Ing.
Tússteikningar fuglar náttúra:  Agnieszka Nowak

Greinargerð með tillögu

Norræna húsið í hjarta Miðgarðs
Norrænahúsið hefur í hugum fólks fágun og reisn, það var byggt af metnaði og endurspeglar þekkingu og virðingu fyrir umhverfinu. Segja má að umhverfi Norræna húss, Öskju og tengingar um háskólasvæðið endurspegli ekki nema að litlu leyti þá þekkingu sem Háskólinn gæti skilað út í samfélagið. Tækifærið sem felst í hönnun háskólasvæðis og umhverfi Norræna hússins með þekkingu á mikilvægi votlendis, sjálfbærni, lýðheilsu og nútíma hugsun um samgöngur, getur skapað fordæmi um nýjar nálganir í borgarumhverfinu. Þegar er hafinn upptaktur að þessum breytingum, með stækkun votlendisins og rannsóknum því tengdu. Segja má að Norrænahúsið hvíli í faðmi háskólaumhverfisins og í anda hugmynda um heildstæð kerfi leyfum við okkur að hugsa um svæði Norrænahússins og háskólans sem eina heild.

 Samkeppnissvæðið – einkenni, gæði og gallar
Samkeppnissvæðið býður upp á tækifæri til að skapa, votlendi sem tengist tjörninni, mýrinni og miðbænum og aðgengi að strandlengjunni beggja vegna. Norrænahúsið hans Aalto speglar sig í tjörninni næst sér og horfir stolt til byggðar og Esjunnar. Háskólasvæðið rammar inn svæðið til vesturs. Þar er þjóðararfurinn, fornminjarnar, sagan, tungan, vísindin, lögin, trúin og sálin. Askjan hýsir náttúruvísindin og rannsóknir þar munu grundvalla ákvarðanir um skipulag og framleiðslu og lífstíl á þessari öld.

Núverandi skipulag er í andstöðu við öll þessi gæði. Aðkoman að Norrænahúsinu einkennist af samfelldum bílastæðaakri, aðalbygging HÍ setur bílinn á stall í skeifunni við húsið. Hringbrautin sker í sundur eðlilegt flæði vatns og fugla og torveldar ferðir gangandi og hjólandi. Askja hefur enga tengingu við votlendið sem umlykur hana. Við Norræna húsið er hins vegar matjurtaræktun og útikaffihús. Þar er líka unnið að ,,ræktun” villtrar náttúru með styrkingu á votlendinu.
Markmið
Megin markmið tillögunnar er að hanna Miðgarð Reykjavíkur sem myndar heildrænt skipulag frá Ráðhúsinu við tjörnina að Norræna húsinu og háskólaumhverfinu. Við leggjum áherslu á:

  • Umhverfisgæði sem setur mannlíf í öndvegi
  • Vistvænar lausnir og virðingu fyrir þeim gæðum sem eru á svæðinu
  • Bættar samgöngur fyrir gangandi og hjólandi
  • Endurskoðun á umferðaflæði bíla og staðsetningu bílastæða
  • Fjölbreytta notkun til fræðslu, leikja og dvalar fyrir alla aldurshópa
  • Skjól og rýmismyndun til ákveðinna nota
  • Að ytra umhverfi Norræna húss og HÍ sýni að hér fari framsæknar stofnanir sem láta hugmyndir í fyrirlestrarsölum koma til framkvæmda utanhúss.

Megin hugmynd
Í hnotskurn er hugmyndin að skapa Miðgarð Reykjavíkur þar sem Norræna húsið hvílir í faðmi háskólaumhverfisins og myndar hjartað í garðinum. Faðmurinn byrjar við Öskju og tengir háskólasvæðið saman með göngu -og hjólastíganeti sem myndar snigilform upp að skeifunni við Háskólann. Norræna húsið er eina húsið sem stendur fyrir innan þessa línu og er þar með dregið inn í garðrýmið. Snigilformið dregur upp mörk garðsvæðisins og aðgreinir bílaumferð frá gangandi –og hjólandi. Sæmundargata er lögð af og umferð beint að Suðurgötu og Sturlugötu, þar sem vel skipulögð bílastæði þjónusta svæðið. Innan snigilformsins er svæðið innréttað fyrir margbrotið mannlíf svo sem, tónleika, útieldhús, leiksvæði, og fræðslu að ógleymdu votlendinu, með fuglaskoðun ofl. Hringbrautinn lyftir sér yfir votlendið á brú þannig að vatn, fólk og fénaður flæðir eðlilega á milli svæðanna og myndar samfelldan Miðgarð með Hljómskála og Tjarnargarði.

Umferð
Tillagan leggur áherslu á göngu -og hjólaleiðir um og gegnum svæðið. Stíganetið er vefur mismunandi stíga, frá mjóum sporum í gegnum landið að breiðari umferðaæðum. Á ákveðnum stöðum er einskonar hraðbraut fyrir hjólandi. Núverandi stíganet er fléttað inn í vefinn þannig að gangandi og hjólandi eru nánu sambandi við ræktaða og villta náttúru. Með bættum almenningssamgöngum og fjölgun stúdentaíbúða má gera ráð fyrir minni þörf fyrir bílastæði. Bílastæðum er komið fyrir í jaðri faðmsins, í nálægð við göngustígakerfi garðsins. Tillagan gerir ráð fyrir 62 nýjum bílastæðum milli Þjóðminjasafns og aðalbyggingingar HÍ í stað þeirr 52 stæða sem voru í skeifunni. Við Norrænahúsið eru 42 bílastæði og við Öskju 114 að meðtöldum fatlaðra stæðum. Í tillögunni bætist hluti Sæmundargötu við bílastæðin við Odda – samtals 134. Skipulögðum bílastæðum fjölgar því um 30, þótt þrengt sé að bílnum.

Til að þjónusta hjólareiðaumferð eru hjólaskýli sett upp við Aðalbygginguna. Einnig er gert ráð fyrir útskoti fyrir SVR beggja vegna Hringbrautar og í Sturlugötu í nágrenni við Norrænahúsið og Öskju.

Brúin sem jafnframt er bygging er útfærð með þeim hætti að hún útilokar umferðaniðinn, með hljóð dempandi yfirborði (opa-malbiki) og hálfopnum göngum úr gleri sem beinir hljóðinu frá Miðgarði. Miðeyjan á brúnni er gróðri vaxin með gleri yfir gönguleið.

Afþreying og upplifanir
Miðgarður býður upp á votlendi með fjölbreyttu fuglalífi, í miðri borg. Vatnið tengir svæðið saman frá Íslenskri Erfðagreiningu að Tjörninni. Brúin er tengipunktur, undir henni er þjónustubygging Miðgarðs, með klósettum, verkfærageymslu og ísbúð ásamt upplýsingum um náttúrufar svæðisins og afþreyingu. Við hlið hússins er hægt að ganga niður fyrir vatnsborð og horfa á þversnið í vatnið gegnum gler og fylgjast með fuglunum synda á milli svæða.

Ef gengið er meðfram bakkanum í átt að Norrænahúsinu er leik og kennslusvæði fellt inn í landið á hægri hönd sem að utanverðu myndar lága hóla, en að innaverðu innréttað sem rými fyrir útikennslu, leiksvæði og grillaðstöðu sem er að hálfu undir tjaldi. Nær Norrænahúsinu er fuglaskoðunarhús þar sem hægt er að dvelja við myndatöku og fuglaskoðun. Húsin sem eru steypt stingast út úr grasivöxnum hæðum, með hurðum og hlerum úr timbri. Setsvæðin og bekkirnir eru timburstallar og vísa í stallana við Norrænahúsið. Landslagið á sléttunni út frá votlendinu eru mjúkar bylgjur og eru timburbekkir meðfram gönguleiðunum settir ofan á eða inn í það. Göngu og hjólaleiðir eru upplýstar og getur lýsingin frá Tjörninni að Norrænahúsinu getur breytt um mynstur eftir áherslum árstímans.

Hátíðagarður Háskólans
Nær aðalbyggingu HÍ, verður umhverfið ,,hannaðra” í hátíðagarði Háskólans, þar sem unnt er að halda útitónleika og dvelja í góðu skjóli. Hátíðargarðurinn er stallað landslag byggt út frá núverandi mannvirki.

Stytta Ásmundar Sveinssonar af Sæmundi á selnum verður útfærð í anda hugmyndar listamannsins, „þar sem styttan er á upphækkaðri innri tjörn en að utan önnur tjörn með stútum sem sprauta vatni upp á bringu selsins sem renna aftur með honum“. Þriðji hringurinn er svo örgrunn tjörn sem má tæma og nýta sem svið fyrir tónleika og sýningar.

Nærumhverfi Norræna hússins
Frá hátíðagarðinum er haldið til Norrænahússins gegnum fjölnota svæði norð-vestan megin við húsið. Þar má reisa veislutjald ef á þarf að halda. Bílastæði Norrænahússins eru staðsett undir laufþaki Álmtrjáa og 1m breið böndin á milli bílastæðanna eru grasmottur og þau hafa því grænt yfirbragð. Núverandi stallar halda sér, en gert er ráð fyrir timburbryggju meðfram vatnsbakkanum neðan við húsið í anda þess sem Aalto hugsaði sér upphaflega. Bryggjan endar í stærri bryggju sem gengur örlítið út yfir vatnsborðið. Vatnsbakkinn að bryggjunni er hlaðinn kantur til að byrja með en breytist svo í náttúrulegan grasbakka. Með þessu móti eru dregnar upp tvær strammar línur sem tala við húsið í anda þess sem upphaflega var hugsað.

Gert er ráð fyrir að matjurtareitirnir og gróðurhúsið haldi sér og byggt verði áfram á þeirri hugsun. Á milli Norrænahússins og Öskju myndast dvalartorg til suðurs sem trappast niður með setstöllum úr 30cm breiðum bjálkum. Ávaxtalundurinn „Nangiala“ er staðsettur í skjóli frá Öskju að torginu, en berjarunnar eru staðsettir taktfast á milli stíganna. Núverandi deigja sunnan við húsið heldur sér en er römmuð inn í suðurgarðinn með stökum trjám. Í tillögunni er gert ráð fyrir veglegri aðkomu að húsinu og aðgengi að sýningarsalnum er gert hjólastólafært frá garðinum.

Askja
Í tillögunni er gert ráð fyrir að Askja tengist betur votlendinu með þýfðu óslegnu landslagi og deigju. Suðaustanmegin við húsið verður samfelld vatnsrás frá íslenskri Erftðagreiningu að votlendissvæðinu. Aðkoman hefur hlotið grænna yfirbragð með breyttum bílastæðum, sem þó rúma sama fjölda.

Vatn í ýmsum myndum
Vatnið er gegnumgangandi þema á svæðinu, allt frá grunnum tjörnum að mjóum vatnsrásum sem leiðir inn í friðlandið þar sem allt yfirborðsvatn staldrar við á leið sinni til sjávar. Öll afvötnun á svæðinu er vistvæn og miðar að því að skila vatninu í votlendið.

Gróður
Gróðurinn einkennist af háum stráum og ómeðhöndlaðri náttúru næst votlendinu, smám saman breytist hún í blómaengi og smárabreiður sem að lokum verður slegið svæði næst byggingunum. Þéttur trjálundur myndar skjól við hátíðagarðinn að austanverðu og á völdum stöðum eru trjálundir og runnar á svæðinu. Tilraunir með eplatré við Norræna húsið mun gefa svæðinu ævintýrablæ.

Lokaorð
Langt er síðan síðast var skipulagður bæjargarður í Reykjavík, og væri það verðugt og uppbyggilegt verkefni að hefja þetta fallega svæði til vegs og virðingar. Miðgarður yrði kærkomin gjöf til borgarbúa á stað sem er öllum viðkomandi og óefað myndu margir njóta til langrar framtíðar.