Image Image Image Image Image
Scroll to Top

To Top

Umfjöllun

23

03
2012

Grjót og gler fær umfjöllun í Morgunblaðinu

On 23, 03 2012

Í þessu verkefni er kynnt til sögunnar nýtt yfirborðsefni í stéttar, innkeyrslur og garða. Efnið sem um ræðir er unnið úr íslensku grjóti og muldu endurunnu gleri. Það er Dagný Bjarnadóttir sem fer fyrir verkefninu.

„Það er þekkt að nota gler í yfirborð til dæmis í Bandaríkjunum hefur það verið notað í einhverjum mæli, og að setja glermulning í malbik er líka þekkt aðferð. Grjót og malarefni, límt saman, er líka þekkt. Að blanda þessu tvennu saman eins og við erum að leika okkur með veit ég ekki alveg hvort er jafn þekkt,“ segir Dagný, aðspurð hvort umrædd aðferð sé séríslensk aðferð. „Þróunarvinnan felst að miklu leyti í því að búa til áferðir úr íslensku hráefni sem eru fallegar og henta okkar aðstæðum.“

Gler gefur ýmsa möguleika

Það er útaf fyrir sig kostur að geta nýtt efni sem annars færi í urðun, en skyldi glerið hafa eiginleika til að bera sem gera það sérstakt að öðru leyti? „Gler er í grunninn bara sandur og hefur því eiginleika sambærilega við annað malarefni,“ bendir Dagný á. „Útlitslega gefur það skemmtilega áferð, lit og glit-effekt, sem er gaman að leika sér með til að brjóta upp til dæmis einsleita fleti.

Með þeirri aðferð sem við eru að nota hleypir það líka vatni í gegnum sig, sem gefur ýmsa möguleika, eins og að leggja það í kringum götutré og að halda yfirborði ávallt þurru, auk þess sem það er hentugt í vistvænar ofanvatnslausnir.“

5000 tonn sem falla til

Dagný bendir á að árlega falla til 5000 tonn af drykkjargleri sem mulið er og notað í landfyllingar eða einfaldlega urðað. Efniviðurinn er því feikinægur, en er grjótblandan einföld í framleiðslu? „Við fáum glerið mulið frá Endurvinnslunni, en það er dálítil vinna að þrífa það, sigta og hreinsa miðana frá“ segir Dagný. „Ef við ætluðum að fara að nota þetta í miklum mæli myndi það vera mikil vinnuhagræðing ef þvotturinn og miðarnir væri framkvæmt véltækt og einungis þurrkunin eftir. Við höfum reyndar líka verið að prufa mulið hert gler frá Samverk, en þeir afhenda okkur það tilbúið til notkunar, tromlað og þurrt. Malarefnið er hægt að fá í ýmsu formi og er það nánast eftir smekk hvers og eins hvernig áferð menn kjósa, en við erum mjög hrifin af sjávarbörðu áferðinni – perlusteinunum sem við höfum fengið frá Litla Horni við Höfn og frá Mýrdalssandi ehf. Það er líka mjög litríkt með alls konar eðalsteinum inn á milli, slípaðir af náttúrunnar hendi. Liturinn skerpist svo enn frekar við límið og verður áferðin þá eins og blautir steinar.“

Prufur í Toppstöðinni

Skyldi svo gler & grjót-blandan vera komin einhvers staðar á sem yfirborðsefni hér á landi? „Nei, þetta er alveg á frumstigi hjá okkur, en á Hönnunarmars erum við að sýna þetta í 1:1 við innganginn að Toppstöðinni í Elliðaárdal“ segir Dagný. „Við höfum gert nokkrar prufur en í þessu tilfelli er hægt að sjá þetta í stærra samhengi og mismunandi áferðir. Það væri mjög gaman að fá að leggja þetta til dæmis í kringum götutré í Reykjavík, það ætti vel við eins og á Laugaveginum að drykkjarumbúðirnar myndu enda sem yfirborð við tré, þar sem þú eina stundina heldur á glerinu og innbyrðir innihaldið, en gengur svo á því skömmu seinna.“

Ef öll 5000 tonnin af gleri sem falla til á ári hverju yrðu notuð, ætli Dagný geti gert sér í hugarlund hversu stór hluti það sé af heildarframleiðslu yfirborðsefnis hér á landi? „Guð nei, það hef ég ekki hugmynd um, ég geri mér enga grein fyrir hversu mikið er framleitt af yfirborðsefni ef allt er tekið saman, malbik, hellur, jafnvel timbur og steypa. En ég get alveg séð fyrir mér að þetta efni geti aukið fjölbreytnina í þessari flóru og að auðvelt væri að gjörbreyta yfirbragði stórra malbikaðra flata svo dæmi sé tekið um möguleikana.“

Sá fyrir sér planið við Hörpu

Hvernig skyldi þessi áhugaverða hugmynd hafa vitjað Dagnýjar til að byrja með? „Hugmyndin byrjaði eiginlega með því að ég komst að því að malbikunarfyrirtækið Colas í Hafnarfirði var að gera tilraunir með mulið gler í malbik, sem er þekkt aðferð erlendis“ segir Dagný. „Mig langaði svo að nota það í malbikið við Hörpuna, þar sem það gefur ótrúlega speglun sem hefði passað mjög vel því húsi, með hliðsjón af hinum tilkomumikla glerhjúpi sem byggingin skartar. En það varð nú ekki ofan á, en þá fór ég að prufa að blanda því saman við grjót, til að leggja í línur í malbikið, ennþá með Hörputorgið í huga. Það varð ekki heldur að veruleika, en fyrstu prufurnar gerði ég með Gísla í Mallandi fyrir 2 árum síðan.“

Síðastliðið haust tók Dagný svo upp þráðinn með Ragnari í Gný sem kom með límefni sem er sérhæft í þessum tilgangi og Herði í Garðvélum, sem er, að sögn Dagnýjar, snillingur þegar kemur að verklegum framkvæmdum. „Saman höfum við verið að vinna að þessari þróun. Út frá þessu hefur svo sprottið hugmynd að ljósi úr mulda glerinu sem er í þróunarferli hjá mér og lítur vonandi dagsins ljós innan skamms.

Af nógu að taka í Toppstöðinni

Ég hvet alla sem hafa áhuga á skoða efnið að koma við í Toppstöðinni um helgina, þar verður líka ýmislegt fleira áhugavert að sjá, til dæmis innsetningin „Óðurinn til glóperunnar“ á vegum Lighthouse, þar sem glóperan verður kvödd með eftirminnilegum hætti, Stormfiðri sem er kjólaspuni, Hnoss vöruhönnun, fatahönnun, rafmagnskappaksturbíll í smíðum og margt fleira,“ segir Dagný Bjarnadóttir. Hún minnir að lokum á að það verður heitt á könnunni alla Hönnunarmars-helgina, opið frá 11 – 17 laugardag og 13 -17 á sunnudag.

sjá grein í Morgunblaðinu