Verk
On 22, Sep 2015 | No Comments | In Samkeppnir Skipulag / útivist | By Dagný
Landmannalaugar
Teymi DLD í samstarfi við teiknistofuna Arkiteó var valið til þátttöku í lokaðri hugmyndasamkeppni um nýtt deiliskipulag Landmannalauga árið 2014.
Sveitarfélagið Rangárþing ytra í samvinnu við Umhverfisstofnun og Félag íslenskra landslagsarkitekta efndi til samkeppninnar, sem styrkt var af Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.
Hér má sjá niðurstöðu keppninnar
Landmannalaugar í skjóli hrauns
Greinargerð með tillögu
Inngangur Ó ó óbyggðaferð í óbyggðaferð við förum, hver er tilhlökkunin við að fara í óbyggðaferð? Er það tilfiningin fyrir ævintýralegum ferðamátanum, yfir ár og holótta vegi, gönguferðin þar sem í hverju spori eru upplifanir sem leika við öll skynfærin, reiðtúrinn þar sem sambandið við hestinn og náttúruna renna saman í eina órofa heild.
Hvernig getum við viðhaldið tilfinningunni í vaxandi ferðamannastraumi fyrir ósnortinni náttúru og upplifuninni að vera einn með henni. Hvernig er ferðalagið að áfangastaðnum, hvernig byggjum við upp ákveðna eftirvæntingu, þegar við nálgumst hann. Hvernig getum við unnið með dulúðina sem felst í hverasvæðunum og gufustrókunum við laugarnar. Hvernig aðgreinum við ólíka ferðamáta þannig að allir fái notið á sínum forsendum. Hvernig getum við leikið okkur með dramatíkina og áhrifin í umhverfinu. Hvernig getum við dregið úr áhrifum vaxandi fjölda farartækja sem fylgja auknum ferðamannastraumi. Hvernig geta hús og mannvirki undirstrikað spennandi upplifun og áhrif náttúrunnar. Formin úr umhverfinu, hraunið, fjöllin, litirnir, áreyrarnar , viðkvæmur en verðmætur gróðurinn, hvernig vinnum við með þessi áhrif. Í tillögunni er markvisst unnið að því að svara þessum spurningum og sköpuð einstök aðstaða sem endurspeglar og lifir upp til náttúrunnar sem hún er sprottin úr.
Megin markmið tillögunnar eru:
- endurheimt og verndun landgæða og viðkvæms gróðurfars
- að skapa virðingu fyrir náttúrunni, auka öryggi og bæta aðstöðu ferðamanna
- skapa aðstöðu sem í efnistökum sínum endurspeglar sérstöðu svæðisins og verður einstakt á heimsvísu
- að byggja upp eftirvæntingu og skapa spennandi upplifun, sé leiðarljósið í öllum útfærslum
- að stuðla að góðu sambýli allra ferðamáta og aðgreina þá eftir þörfum þannig að allir njóti á eigin forsendum.
- að draga sem mest úr áhrifum bíla og rútna á svæðinu
- að vinna með arkitektúr í mannvirkjum sem byggir á einfaldleika gamalla byggingarhefða svæðisins, í bland við nútíma lausnir.
- Að hús og mannvirki séu einföld í framkvæmd og uppsetningu og viðhaldslétt
Skipulagstillaga
Förum í óbyggðaferð í Landmannalaugar, við nálgumst nýju aðstöðuna við Námshraun akandi og sjáum húsin standa ofan við stalla sem fylgja straumstefnum áreyranna. Gufan liðast upp frá nýju lauginni sem horfir út yfir áreyrarnar. Í stöllum og hraunhólum sem ramma inn tjaldsvæði og bílastæði er farinn að vaxa mosi, þannig að ásýndin er frekar græn. Það er greinilegt að formin eru undir áhrifum frá jökuláreyrunum, en áferðin sem deilir upp rýmunum frá hrauninu.
Vegurinn hlykkjast á skemmtilegan hátt og beinir sjónum manns að mismunandi fókuspunktum, við hægjum sjálfkrafa á okkur. Þegar ekið er inn meðfram Sólvangi blasa við hestar í hestagerði við nýtt hesthús -og hnakkageymslu sem stendur undir brekkunni. Þarna er hópur að leggja á kannski til að ríða inn í Jökulgil, eða halda áfram fjallabaksleið. Vegurinn tekur síðan stefnu á nýju þjónustubyggingarnar sem standa ofan við flóðvarnargarðinn og horfa út yfir opið landslagið. Húsin hafa skemmtilega skýrskotun í gamlar byggingarhefðir, með torfhleðslum á völdum stöðum og einföldum formum sem rýma við fjöllin í kring. Náttúrulegur litur timburklæðninganna falla líka vel að lit umhverfisins. Vegurinn beinir okkur á aðalbílastæðið, og við erum leidd að nýju þjónustubyggingunum, við leggjum bílnum og ákveðum að fá okkur veitingar og ganga svo inn í gömlu laugar, þar sem við ætlum að hitta vini okkar sem eru að koma gangandi Laugarveginn. Við setjumst inn í veitingasalinn þar sem óhindrað útsýni yfir stórkostleg náttúruna blasir við okkur. Eftir ljúfar veitingar leggjum við af stað á nýju gönguleiðinni meðfram landfyllingunni ofan við flóðvarnargarðinn, grjótgarðurinn er um tvo metra yfir áreyrunum en lækkar um 50 cm að innanverðu og myndar þannig setkant, allstaðar blasir opið landslagið við okkur. Við sjáum gufuna stíga upp frá nýju baðlauginni, ákveðum að stinga upp á því við vini okkar að fara í hana eftir göngutúr daginn eftir. Nokkrir gistiskálar standa ofan við gönguleiðina á bak við hraunhæðir, þau hafa sama yfirbragð og önnur hús á svæðinu, með torfhleðslum og stórum gluggum á gafli sem horfir út yfir svæðið, ekkert hús skyggir á annað.
Börnin voru búin að átta sig á að það væri hægt að leigja hesta og fóru ríðandi inn að Laugum þar sem hægt er að geyma hestana í rétt skammt frá á meðan þau skella sér í laugina. Þar sem við göngum eftir hraunjaðrinum sjáum við þau í fjarska úti á áreyrunum. Þar sem bílvegurinn er undir brattri skriðu göngum við á timburbrú meðfram veginum sem slútir yfir jökulánni, minnir mig á dramatíkina sem var í einstiginu í skriðunni í gamla daga, sem amma og afi hafa sýnt mér myndir af. Maður á hjóli kemur eftir veginum. Við göngum meðfram nýju rútu -og bílastæði við Námskvísl, rúturnar falla inn í bakgrunn fjallsins og bílastæðið er brotið upp með hraunhólum, sem draga úr áhrifum þeirra. Við göngum meðfram hraunhleðslu, stefnum á klett framundan og erum leidd að aðkomusvæði þar sem upplýsingaskiltum um svæðið, gönguleiðir og náttúrufar er komið fyrir við hlaðinn vegg. Maðurinn á hjólinu teymir það upp rampann, við göngum upp tröppurnar og stöldrum við á útsýnispalli. Við okkur blasir litrík líparítfjöllin og fagurgrænt mýrlendið á laugasvæðinu, en mýrin þekur nú allt svæðið þar sem áður voru tjaldsvæði. Búið er að lækka syðsta hluta syðri flóðvarnargarðsins og móta landið við báða í aflíðandi brekkur inn á móti svæðinu, gönguleið er eftir endilöngum görðunum og hópur stendur á útsýnispalli á enda syðri garðsins. Gufan frá lauginni gerir svæðið dulmagnað og rétt í þessu kemur sms frá vinum okkar „erum lent, erum að setja farangurinn í geymsluna, hittumst í lauginni“ . Við ákveðum að ganga timburstíginn yfir mýrina beint að nýju búningsklefunum, þeir eru skemmtilega einföld útfærsla, að hluta undir berum himni, en fötinn undir þaki, karla og kvennaklefi. Á pallinum rétt áður en við komum að lauginni stendur fólk að taka myndir yfir laugina, ég sé að það er búið að stækka hana til norðurs og að stíflugarðurinn er útfærður sem sæti í vatninu.
Krakkarnir eru komnir líka og ætla sannarlega að ríða til baka á eftir. Eftir dásamlega laugarferð, þar sem við m.a skoðuðum gamla borghlaðna gangnamannahúsið, tillum við okkur öll á nýja pallinn við gamla ferðafélagsskálann, sem búið er að gera upp og breyta í „fjallakaffihús“ þar sem hægt er að snæða sitt eigið nesti úti eða inni eða kaupa sér vöfflur og kaffi. Pallurinn sem við sitjum á tengir saman skálann og klósettaðstöðuna sem jafnframt er geymsla fyrir farangur. Við sitjum í skjóli af timburveggjum sem líkja eftir formum fjallanna en hinum megin við þá heyrum við í hópi sem er að skoða kortin á upplýsingatorginu áður en þau ætla að ganga Suðurnámur. Við endann á pallinum eru bílastæði fatlaðra, mér varð hugsað til Jóns frænda sem gæti notið þess að koma hinga, þar sem hann kæmist á hjólastólnum sínum bæði um þennan áningastað og á nýja svæðinu. Vegurinn að fatlaðrastæðunum er jafnframt hjólaleið og eru hjólastæði staðsett við enda hans. Við röltum með krökkunum út að hestarétt og skoðum gamla sæluhúsið og hlöðnu réttirnar í leiðinni. Hestaréttin er úr fallegri hraunhleðslu og myndar rými á móti hrauninu með sama hætti og þær eldri. Hestarnir standa við timburslá utan við réttina þegar við komum, verið er að leggja á. Við veltum fyrir okkur gönguleiðum morgundagsins upp á Bláhnúk en leiðin blasir við okkur frá réttinni, við sjáum fólk standa á útsýnisstöðum hátt upp í fjalli. Veltum líka fyrir okkur hvort við ættum að ríða inn í Jökulgil með krökkunum hinn daginn. Við sameinumst vinum okkar aftur, þar sem þau eru að taka farangurinn úr geymslunni, fáum ferðasögu undanfarinna þriggja daga á göngutúrnum til baka. Við göngum í gegnum Námshraunið til norðurs og það sem fyrsta sem mætir okkur á nýja áningastaðnum eru tjaldstæði bakpokafólks, sem eru hólfuð skemmtilega niður með mosavöxnum hraunhólum. Hraunhólarnir með sínu mosavaxna yfirbragði mynda skemmtileg rými og veita skjól. Við dáumst að því hvað tjaldstæðin séu vel leyst, aðgreint fyrir þá sem eru gangandi með sinn viðlegubúnað og hinna sem eru með svefnaðstöðuna í eða við bílinn, samt er stutt fyrir alla að þjónustuhúsinu. Þannig er stemmingin órofin beint úr göngunni frá Laugum/ Laugavegi í að tjalda á kyrrlátum og rólegum stað. Tjaldsvæðið sjálft er á ógrónu landi og eru kassar með grjóti til að staga niður tjöldin með reglulegu millibili, einnig efniviður til að setja saman frumstæð borð og bekki. Eftir að hafa valið gott tjaldstæði, skreppur Kalli eftir bílnum okkar með farangrinum og tjaldi, en hægt er að skutla farangrinum að jaðri bíllausa tjaldstæðisins. Við endum daginn á að snæða kvöldmat á pallinum við þjónustuhúsið, en þar er hægt að sitja í skjóli og njóta útsýnisins. Nágrannar okkar sem gista í fjallabíl á svæðinu voru að koma úr nýju lauginni, yfir sig hrifin. „Hún er allt öðruvísi en gamla laugin, hún spilar á allt aðra upplifun, þú getur t.d synt 30 m beint út í landslagið, horfir bara út á áreyrarnar og vatnið flýtur yfir bakkann. Hægt er að fara á milli þriggja mismunandi lauga, þar sem þessi langa stendur hæst, alls konar útfærslur á slökun og nuddi, auk þess sem hægt er að fara í gufubað.“ Þau segja okkur líka frá gönguleiðunum á svæðinu, að hægt sé að ganga í gegnum Námshraun að gönguleið að Frostasaðavatni og Suðurnámum. Það er einnig búið að stórbæta gönguleiðirna á ákveðnum stöðum, gera rásir í gegnum stígana þannig að vatnið renni til hliðar en ekki eftir þeim og þar sem albrattast er hafi verið útbúin smáþrep, einnig séu á völdum stöðum manngerðir útsýnisstaðir.
Við förum að sofa full tilhlökkunar að kynnast Landmannalaugasvæðinu betur næstu daga. Krakkarnir sofna alsælir, fengu að hjálpa til við að gefa hestunum.
Lykilþættir tillögunnar
Svæðið norðan Námshrauns
Við völdum að nema land á áreyrunum undir hrauninu í stað þess að skemma gróið land við Sólvang. Með þessu staðarvali verður minnst röskun á núverandi landi. Það má segja að það sé endurheimt land sem áin hefur unnið á í áranna rás. Við byggjum líka á hefðinni að skapa aðstöðu upp við hraunjaðar. Við notum straumstefnur áreyranna til að móta flóðgarðinn, þannig vinnum við með ríkjandi straumstefnum og látum þetta form smitast yfir í tillöguna að öðru leiti. Gróður á svæðinu er mjög viðkvæmur og gerum við okkur grein fyrir að allstaðar þar sem álag er mun enginn gróður vaxa. Mosi myndast tiltölulega hratt þar sem hann fær að vera í friði og sérlega á hraungrýti. Gott dæmi um þetta er flóðkanturinn við núverandi veg. Jarðvegsblandaðir hraunhólar er gegnumgangandi element í tillögunni, notaðir til að deila upp rýmum eða skapa skjól, þeir munu smám saman verða mosavaxnir og mynda gróið yfirbragð, auk þess þjóna þeir þeim tilgangi að stýra umferð gangangi og akandi. Skriðurnar úr fjallinu smituðust einnig inn í tillöguna en áhrifanna gætir á útfærslum bílastæðanna við fjallshlíðarnar, en ímynda mætti sér að skriðurnar deili upp bílastæðunum.
Byggingar
Staðsetning bygginganna er hugsuð þannig að þær skapi ákveðið skjól við dvalar –og tjaldsvæði en innan úr þeim verði einstök sjónræn tenging við umhverfið ótruflað af amstri svæðisins. Við leggjum til að við hestagerðið sem við aðskiljum frá annari aðstöðu, staðsett syðst á Sólvangi, verði byggð aðstaða fyrir hnakka og þurkklefa fyrir yfirhafnir ásamt nokkrum plássum fyrir hross. Þessi aðstaða myndi þjóna gangnamönnum á haustinn, en einnig mætti núverandi hestaleiga flytjast á þennan stað. Þetta gefur auk þess færi á að þjóna betur hestaferðalöngum á svæðinu. Hugsanlega mætti einnig byggja gistiskála á þessum stað fyrir þennan ferðahóp. Byggingarnar sem óskað var eftir inn á nýja svæðinu mynda 3 kjarna.
- Tvær byggingar mynda torg sem taka á móti fólki þegar komið er inn á svæðið. Stærri byggingin hýsir aðstöðuhús Umhverfisstofnunar/gestastofa ásamt gistirými starfsfólks. Þjónustan er ætluð til að þjóna gestum friðlandsins. Í húsinu er aðstaða fyrir landverði , kynningar -og fræðslu rannsóknaraðila. Á efri hæð hússins er gistiaðstaða fyrir starfsfólk, landverði, leiðsögumenn,hálendisvakt/lögreglu, osfr. Minni byggingin er upplýsinga og veitingaaðstaða fyrir alla gesti svæðisins.
Gera má ráð fyrir að fólk á fjallabaksleið nýtt sér þessa aðstöðu án þess að ætla að gera neitt annað á svæðinu.
- Annar kjarninn er gistirými fyrir um 150-200 manns, deilt á þrjú hús sem gætu verið rekin af jafnmörgum rekstraraðilum.
- Í þriðja kjarninn eru tvær byggingar sem hýsa annarsvegar þjónustuhús tjaldsvæða, og hins vegar snyrtingar ásamt búningsaðstöðu við nýja baðlaug. Í þjónustuhúsinu yrði m.a eldunaraðstaða, þurkklefi fyrir blaut föt og geymsla fyrir farangur.
Á svæðinu er gert er ráð fyrir um 40 stæðum fyrir húsbýla/ fellihýsi og yfir 100 tjöldum á um 0,6 ha svæði. Rútustæði eru 20 talsins og 120 bílastæði við veitingasölu og gestastofu,þar af fjögur stæði fatlaðra. Bílastæðin eru hönnuð með það í huga að sem flestir velji að ganga að Laugahrauni að gömlu lauginni fremur en keyra. Gert er ráð fyrir tveimur bílastæðum við hvert stakt gistihús og 9 stæðum í grend við nýja baðlaug þar af 2 stæði fatlaðra.
Bílastæði við Námskvísl
Við Námskvísl eru 10 rútustæði og 80 bílastæði, rútur geta auðveldlega ekið hring á planinu og unnt er að stoppa við upplýsingatorg og hleypa fólki út. Héðan fá eingöngu starfsfólk og fatlaðir að aka að gamla laugasvæðinu. Gert er ráð fyrir að hjólandi umferð deili vegkaflanum frá aðstöðu við Námshraun og að Námskvísl með bílum og þegar haldið er inn á Laugasvæðið fari þau fyrst um sameiginlegan göngustíg en taki svo veginn þegar komið er yfir árnar. Gönguleiðin er hins vegar sér og eru tvær meginleiðir í gegnum Námshraun, annars vegar beint frá þjónustukjarnanum og hins vegar meðfram hraunjaðrinum við ána. Þetta er gert til að skapa hringleið og til að dreifa fjöldanum sem gengur þarna á milli. Báðar leiðirnar sameinast svo á göngubrú meðfram bíl -og hjólavegi að Námskvísl.
Laugahraun –núverandi svæði
Ein megin hugmyndin á því svæði er endurheimt fyrri landgæða, þar á meðal votlendis og verða vatninu sem nú er í skurðum veitt inn á núverandi tjaldsvæði til að flýta fyrir gróðurmyndun. Allar byggingar nema tvær verða fjarlægðar af svæðinu, þ.e ferðafélagsskálinn og snyrtiaðstaðan, en m.a er gert ráð fyrir að setja torfhleðslur við þær til að draga úr áhrifum þeirra. Nýjar tengingar verða frá Fí skálanum frá veitingasal og dagaðstöðu út á pall og klæðningar og útlit verður fært til samræmis við byggingarnar við Námshraun. Ný búningsaðstaða ásamt sturtum verða byggðar við laugina, til viðbótar þeim sturtum sem fyrir eru í núverandi byggingu. Timburstígar verða þar sem votlendið er sem mest en núverandi malarstígur verður endurbættur og settar brýr þar sem þörf reynist. Hestarétt verður hlaðin þar sem núverandi gerði er í dag. Flóðgarðar verða ósýnilegir innan frá svæðinu og eftir breytingarnar verður ákveðin ró á svæðinu endurheimt.
Efnisval – kostnaður
Ein megin hugmynd tillögunnar er að byggja á einföldum og ódýrum lausnum, stígakerfið er að megninu til grúsarstígar, nema þar sem nauðsynlegt er að leysa með hörðu yfirborðssefni vegna aðgengi hreyfihamlaðra, einnig er notast við timburstíga þar sem votlendið er sem viðkvæmast. Húsin eru einföld timburhús, sem hægt væri að smíða í byggð og flytja á svæðið, gert er ráð fyrir að nota lerki sem fær að grána. Vandaðar hraunhleðslur eru næst byggingum, en annars eru jarðvegshraunhólar nýttir, sem einungis þarf gröfu til að framkvæma. Flóðgarður er grjótgarður sambærilegur þeim sem er nyrst á núverandi svæði.