Image Image Image Image Image
Scroll to Top

To Top

Verk

On 18, Feb 2012 | No Comments | In | By Dagný

Ingólfstorg

DLD í samstarfi við A2F arkitekta tók þátt í samkeppni Reykjavíkurborgar árið 2012 um hönnun hótels og skipulags Ingólfstorgsreitsins

INGÓLFSTORG – KVOSIN
greingargerð með tillögu

“Höfuðból í hjarta borgar”

Inngangur

Við erum stödd á einu merkasta sögusviði borgarinnar, þar sem Ingólfur nam land, hér myndaðist fyrsta gatan í borginni. Jafnvel garðsagan á sitt upphaf hér, þar sem enn standa elstu tré borgarinnar. Sannkallað Höfuðból. Svæðið er hins vegar sundurlaust og án tenginga við umhverfi sitt, torgrýmin illa nýtt, og slæm tengin þeirra á milli. Ingólfstorg er eyja skorin frá umhverfinu með bílum. Saga Víkurgarðs er óljós nema þeim sem til þekkja. Gömul falleg hús standa við ljóta brunagafla.

Hönnun nýs hótels á svæðinu og breytingar á Ingólfstorgi og Víkurgarði fela í sér tækifæri til að binda aftur saman sem sundur var slitið.

Markmið

Markmiðið er að almenningsrýmin í Kvosinni myndi saman sterka heild, dragi fram staðarandann og auki aðdráttarafl þess. Hótelið beri með sér sýn til framtíðar, það lagi sig að þeim byggingum sem fyrir eru og virði sögulegt samhengi þeirra, en taki jafnframt þátt í að flétta saman og móta bæjarrýmið. Söguleg arfleifð og menning séu virt og gerð aðgengileg og læsileg almenningi. Að bíllinn víki úr sessi fyrir auðugra mannlífi, þar sem, gangandi og hjólandi vegfarendum er gert hátt undir höfði.

Umhverfi og skipulag

Í skipulaginu er lögð áhersla á flæði gangandi og hjólandi milli svæða og tengja bæinn aftur við höfnina, þar sem hjartað í borginni slær í augnablikinu.

Garðrými og torg á skipulagssvæðinu:

  1. Ingólfstorg – lítið vel afmarkað borgartorg. Torg sem skartar framsækinni hönnun með áherslu á íslenska nálgun og efnivið.
  2. ”Vesturtorg – Siemsentorg” – nýtt torgrými í borginni, eftir tilfærslu Siemsenhússins frá Tryggvagötu, torgið verður hluti af flæði frá Ingólfstorgi í átt til sjávar.
  3. Víkurgarður – sögusviði ýmissa minja frá upphafi byggðar.
  4. Austurvöllur – miðborgargarðurinn, vel afmarkaður, tenging við veitingastað, sólríkur skjólgóður, grænn, rými fyrir stóra hópa til að fagna eða mótmæla.
  5. Gamli Alþingisgarðurinn – kyrrlátt frekar lokað rými.
  6. Nýi Alþingisgarðurinn – nýtt garðrými sem tengist gönguleiðum Kvosarinnar. Kyrrlátt rými með grænu virðulegu yfirbragði.

Auk þessara skipulagshugmynda mætti hugsa sér að Aðalstræti 9 hýsti listamenn og erlenda rithöfunda og bókasafn íslenskra verka á öllum útgefnum tungumálum. Þakflöturinn yrði útfærður sem garðsvæði.

Landsímahúsið væri með lifandi starfsemi á jarðhæðinni og opnaðist á móti Austurvelli

Umferð

Aðalstræti til vesturs, Hafnarstrætis til norðurs, Pósthússtræti til austurs verður bílfrítt svæði, fyrir utan þjónustu að morgni. Leyfilegt verður að læðast í gegnum Kirkjustræti á forsendum gangandi umferðar, en einungis rútur og leigubílar mega staldra þar við á merktum stæðum.
Pósthússtræti og sundin að höfninni verða göngugötur. Gamli hafnarkanturinn í Pósthússtræti verður gerður sýnilegur með áherslu á göngutengsl að Hörpu. Gamla strandlínan verður dregin fram í gegnum kvosina. Tryggvagata verður einstefna til austurs með bílastæðum skuggamegin í götunni.
Fyrir framan listasafnið er gert ráð fyrir rútustæði og leigubílum.

Frá Ingólfstorgi að Víkurgarði

Ingólfstorg

Meginhugmynd torgsins er að vekja hughrif með stíliseraðri náttúru. Stöllun torgsins myndar eins konar landslag og skapar spennandi setsvæði í leiðinni. Torgið flæðir inn á við í þægilegum halla og skapar þannig aðgengi fyrir alla. Rammi torgsins eru byggingarnar með vegleg dvalarsvæði sem skapa mannlíf á torginu. Aðgengi að húsum er leyst í uppbroti yfirborðsins og stallarnir fela í sér leikmöguleika m.a fyrir brettakrakkana.

Vatn í mismunandi formi mun leika stórt hlutver á torginu.

Regnvatn mun renna í sýnilegum rásum að skósólaþunnum vatnsfleti, sem speglar birtu himinsins. Hringrás vatns í lækjarsprænu mun skapa þægilegan nið, þegar setið er í stöllunum.

Torgið verður snjóbrætt fyrir utan hæðirnar sem koma upp úr, þar sem snjór mun sitja lengur og skapa árstíðabundna stemmingu, ásamt trjám og gróðri á torginu.

Heita vatnið fær að njóta sín með nýjum hætti. Nokkur setsvæði á torginu verða upphituð og við eitt þeirra verður fótabað með nuddmöguleika. Þessi nálgun er skýrskotun til nafnsins Reykjavík og endapunktsins á Laugavegi og lauganna í Laugardal.

Fínn úði frá yfirborði líkur gufu skapar dulúðuga stemmingu á völdum stöðum.

Torgið opnast sem bjart og sólríkt í andstæðu við skuggsælt Austurstrætið, ljóst yfirborðsefni mun ýkja þá upplifun. Í efnisvali munu einnig timburbjálkar skírskotað til gömlu bygginganna og bryggjanna. Hugsa mætti sér að mynstra í flötinn á einum stað öndvegissúlurnar eins og þær hafi nýlega rekið á land.

Lýsingin verður lágstemmd en þó verður hægt að skapa mismunandi stemmingu yfir vetrartímann.

Á suðurhluta torgsins mun hótel Höfuðból rísa um 100 herbergja hótel á 3,5 til 4 hæðum. Það lagar sig að þeirri byggð sem fyrir er og bindur saman gamalt og nýtt og tengir torgsvæðin saman með leiðandi veggjum á jarðhæð. Hótelið er eins og smækkuð útgáfa af borg með götum, görðum og torgi. Það endurspeglar þann byggingastrúktur sem er í Grjótaþorpinu og talar í efnisvali, uppbroti og þakformi við gömlu húsin á svæðinu.

Aðalstræti 7 er flutt norðar í götuna og myndar nú skemmtilegt rými með hótelinu og húsunum við Veltusund. Í þessu rými verður útfært grænt setsvæði sem janframt nýtist sem svið á móti torginu.

Víkurgarður

Víkurgarður var kirkjustæði um tíma og kirkjugarður frá 900-1838, en fékk þá hlutverk skrúðgarðs aðeins 45 árum eftir að síðasti maður var jarðaður. Í garðinum stendur eitt elsta tré borgarinna gróðursett 1883. Í tillögunni er lagt til að þessi saga verði gerð sýnilegri. Tillaga Teiknistofunnar (Bautasteinn, 1. tbl., 7. árgangur, apríl 2002) um að opna aðgengi að landnámssýningunni undir Aðalstræti er nýtt í breyttri mynd. Kirkjustæðið verður grafið upp og gert sýnilegt. Að hluta til svífur torgið yfir rústunum, en rampi leiðir niður að innganginum. Falleg lýsing verður á gryfjunni og myndir af kirkjunni á veggnum á móts við innganginn. Húsið við Vallastræti 4 mun standa í garðinum við Kirkjustræti og styrkja götumyndina þar og ljá garðinum eldra yfirbragð sem hæfir honum. Í garðinum verður útfærsla sem vekur minningar um gamla þúfnakirkjugarðinn, þar sem 30 jarðsettra kynslóða er minnst. þessar þúfur munu þó einnig þjóna sem sæti og leikur fyrir börn. Núverandi minnisvarðar verða staðsettir á móts við kirkjustæðið.

Hótel Höfuðból
Innra skipulag

Kjallari
Gert er ráð fyrir að skemmtistaðurinn Nasa verði fluttur niður um eina hæð óbreyttur með upprunalegum innréttingum. Áður en framkvæmdir hefjast mun rannsókn fara fram um hvort fornminjar leynist á svæðinu, ef svo reynist mun Nasa standa óhreyft en verslanir á jarðhæð víkja.

Í kjallara undir veitingastað er eldhús og starfsmannaaðstaða. Spa og líkamsrækt er þar einnig sem aðgengilegt verður bæði gestum hótels og almenningi, eina slíka þjónustan í næsta nágrenni. Nasa mun tengjast daglegum rekstri sem t.d ráðstefnusalur og tvískiptur fjölnota salur tengir Nasa við hótelilð. Ipod verkið ”Nasasjón”, á inngangstorginu gefur innsýn í íslenska tónlistarflóru.

Jarðhæð
Á jarðhæð er móttaka og öll þau rými sem nauðsynleg eru hótelrekstri, en rík áhersla er lögð á starfsemi sem tengist bæjarlífinu með beinum hætti, svo sem kaffihús/ bar, matsalur og verslanir sem opnast út í almenningsrýmin.

Efri hæðir
Á efri hæðum eru herbergi hótelsins. Þau snúa flest út á Ingólfstorg, en hluti þeirra snýr að Aðalstræti, annar að Austurvelli þriðji að innri garðrýmum. Aðalgangrýmið tengist sjónrænt Bröttugötu Grjótaþorpsins og Vallarstræti við Austurvöll. En á jarðhæð eru þessi göngutengsl í gegnum bygginguna. Í umferðarrýmum er útsýni út á Austurvöll, Grjótaþorp, Víkurgarð, Aðalstræti og innri garða. Sólrík sameiginleg verönd snýr í átt að Austurvelli.

  • Efnisval og vistvæn hönnunHlutar útveggja eru með timburklæðningu sem er hlýlegt og vistvænt efni og jafnframt skírskotun í gamlar byggingar. Á jarðhæð er gert ráð fyrir gleri í fassöðu.
  • Vistvæn hönnun er höfð að leiðarljósi við hönnun hótels, torga og garða. Til þess að spara orku verður dagsbirta nýtt eins mikið og hægt er í umferðarrýmum. Gert er ráð fyrir gróðurþaki, sem er jákvætt fyrir fuglalíf og er hljóðdempandi, gagnvart t.d flugvélum, einnig minnkar það álag á niðurfallskerfi.

Framtíðarsýn

Í þessu umdeilda verkefni að byggja hótel á þessum sögufræga stað eru tækifæri, sem felast í að tengja saman sögusviðið og bæta gæði borgarrýmanna með aðferðum nútíma byggingarlistar og umhverfishönnununar. Fyrir utan að færa borginni nýtt og spennandi innihald á Ingólfstorgi stækkar nýtilegt svæði frá því sem nú er. Ingólfstorg ásamt aðgengi að sögu Reykjavíkur í Víkurgarði og Hótel Höfuðból mynda saman heild sem kemur til með að styrkja hjarta Reykjavíkur um ókomna tíð.