Image Image Image Image Image
Scroll to Top

To Top

Verk

Geysir í Haukadal

Í janúar 2014 skilaði DLD tillögu í samkeppni um svæði Geysis í Haukadal.  Bláskógabyggð hlaut styrk úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að halda keppnina, í samstarfi við  Arki­tekta­fé­lag Íslands og Félag Landslagsarkitekta en dómnefnd auk þeirra skipuðu, Land­eig­enda­fé­lag Geys­is ehf og ríkið. Hér má sjá niðurstöðu dómnefndar.

Meðfylgjandi er greinargerð með tillögu DLD

Aðstoð við teiknivinnu:  Julia Woelcher landslagsarkitekt og Heiða Hrund Jack landslagsarkitekt.

Geyssisvæðið -heitur staður
Greinargerð

Inngangur
Ferðalag að náttúruperlu, hvar byrjar það og endar? Byrjar það kannski  í huganum, á netinu,  og hvernig er svo ferðalagið frá því sest er upp í bílinn eða rútuna? Í tillögunni er unnið með upplifun ferðamannsins þegar hannr nálgast Geysissvæðið akandi, hvernig hann er leiddur á þægilegan máta í gegnum mismunandi upplifanir á svæðinu, þar til hann yfirgefur svæðið með góða minningu í huga. Gengið er úr frá því að vernda náttúruperluna og stuðla að virðingu við hana.

Markmið
Meginþema tillögunnar er að vinna með óhindrað flæði á svæðinu:

  • flæði vatns á hverasvæði án hindrana
  • flæði fólks um svæðið án hindrana bílaumferðar
  • flæði þjóðvegar án truflunar frá gangandi og akandi vegfaranda
  • flæði akandi umferðar til og frá svæðinu – rútu- og bílastæði

Markmiðið er að byggja upp eftirvæntingu, skapa spennandi upplifun, og veita gott aðgengi að sem flestum hverum á svæðinu. Leitast er við að skapa virðingu fyrir náttúrunni, að auka öryggi ferðamanna og móta einstakt svæði þar sem heita vatnið er í aðalhlutverki.

Skipulagstillaga
Meginhugmynd skipulagstillögunnar er að skapa aðgengi þar sem mismunandi umferð getur flætt óhindrað og án skörunar.

Útgangspunkturinn er að skapa auðvelt aðgengi frá núverandi þjónustukjarna að hverasvæðinu, með því að lækka þjóðveginn og byggja brýr yfir hann fyrir gangandi umferð.
Við þjónustukjarnann er mótað torg þar sem gönguleiðir að hverasvæðinu byrja og enda. Gjáin sem myndast við að lækka þjóðveginn gerir það að verkum að eina leiðin að svæðinu frá þjónustukjarnanum er yfir brýrnar. Þannig mótast aðgangsstýring sem mætti tengja gjaldtöku. Hæðin á núverandi svæði helst óbreytt þar sem brýrnar enda og einungis er reiknað með að lækka veginn. Torgið verður hjarta svæðisins með útsýni að Strokki og hverasvæðinu öllu.

Akandi umferð
Þjóðvegurinn liggur óhindrað um gjá undir göngubrýrnar, en tvær innkeyrslur frá þjóðvegi að þjónustubyggingum og byggðakjarna verða að austan- og vestanverðu. Auk þess að auðvelda aðgengi gangandi gesta minnka sjónræn áhrif og umferðarniður . Áhrifaríkt verður að nálgast svæðið frá þjóðveginum þar sem gufa stígur upp frá torginu og vatn seytlar niður stoðveggina sem með tímanum verða mosavaxnir.
Gert er ráð fyrir að þjónustubyggingin verði stækkuð til suðurs og núverandi íbúðarhús aftan við hana flytjist af svæðinu. Þá opnast möguleiki á að leggja þjónustuveginn í gegnum svæðið að sunnanverðu þannig að gott flæði verði milli bílastæðakjarna og að þjóðvegi. Gert er ráð fyrir að flytja bensíndælur að þessum vegi. Áhaldahús verður sunnan við nýja veginn við núverandi lagersvæði.
Þrír bílastæðakjarnar liggja út frá þjónustuveginum og er gert ráð fyrir að rútur geti lagt frá báðum áttum og haldið áfram í beinni akstursstefnu. Í tillögunni er gert ráð fyrir 18 rútustæðum og 233 bílastæðum.

Torgið – upplifun og fræðsla
Heitavatnslækirnir, sem nú enda úti í skurði, eru leiddir inn á torgið. Lækirnir eru sýnilegir á yfirborðinu en hverfa undir yfirborð þar sem helstu göngustefnur þvera. Á leið inn á hverasvæðið næst torginu er vatnið leitt í borðhæð, þannig að hægt sé að snerta það. Á bakaleiðinni er hægt að enda í fótabaði á Torginu. Vegna landhalla verður sethæð breytileg og hentar fótabaðið því jafnt fullorðnum sem börnum. Frá fótabaðinu rennur lækurinn áfram niður með stíg að bílastæði og endar í sama skurði og fyrir breytingar.

Gert er ráð fyrir stækkun hótelsins í átt að torginu. Veitingastaðir á svæðinu hafi aðgang að útiveitingaaðstöðu á torginu sem rammast inn með hraunhleðslum með setkanti að innanverðu en hærri að utanverðu og grasi sem hallar á móti dvalarsvæði. Tröppur fyrir miðju torgi leysa hæðarmun og nýtast einnig sem setsvæði. Hreyfihamlaðir eiga auðvelt aðgengi um allt torgið.

Fræðsluskilti verða öll staðsett á torginu. Einungis nöfn á hverum og lágmarksupplýsingar verða inná hverasvæðinu. Hlaðnir veggir með upplýsingaskiltum mynda stefnu í átt að inngangi inn á hverasvæðið.
Á skiltunum verða kort og hagnýtar upplýsingar í máli og myndum.

Kortaskilti
Yfirlitskorti yfir nöfn hveranna og tegundaflokkun.
Jarðfræðiskilti
Jarðfræði Geysissvæðisins útlistuð með skýringarmyndum og texta.
Söguskilti

Fjalla í máli og myndum hvernig menning svæðissins tengist tilvist hveranna.
Varúðarskilti
eru staðsett nálægt inngangi inn á svæðið. Þar er fólki boðið að snerta vatnið í handlauginni  um leið og það er varað við brunahættu innan svæðissins. Þá er því boðið að fara í fótabað í bakaleiðinni.

 

Þjónustuskilti
Vakin er athygli á allri þjónustu á svæðinu sem og gönguleiðum og merkum stöðum í nágrenni svæðissins.
Göngustígar
Stíganetið byggir á hugmyndinni um óhindrað flæði vatns og fólks. Stígakerfið skiptist í þrjár tegundir stíga; aðalstígur úr trefjasteypu, timburstígar og malarstígar.

Stígum á hverasvæðinu er lyft frá yfirborðinu svo vatn frá hverunum geti flætt í eigin farvegi. Fólksflæðið um göngustíganetið er hringrás. Þannig ber svæðið meiri umferð virðist ekki eins mannmargt, þar sem fólk mætist lítið á leiðinni. Meginleiðin að vestanverðu er lægri í landinu en sú eystri, þannig er ekki bein sjónlína á milli stíganna. Straumþunginn er nokkuð ákveðinn á leiðinni upp að Strokk og Geysi, með fáum útúrdúrum en á bakaleiðinni kvíslast umferðin meira um svæðið.  Með reglulegu millibili verður komið fyrir bekkjum við stígana. Auk þess verður myndað sérstakt útsýnis- og dvalarsvæði við Strokk og önnur áherslusvæði.  Við Geysi verður  upphækkaður stallur að norðanverðu þannig að horfa megi ofan í hann.

Timburstígar hlykkjast út frá meginstígnum og veita aðgengi að hverum á sunnanverðu svæðinu.Breyta má legu þeirra eftir aðstæðum.

Aðalstígur og timburstígar eru aðgengilegir hreyfihömluðum, en malarstígar liggja um brattari svæði. Hægt er að ganga að Konungssteinunum og horfa yfir svæðið úr sætinu „Kóngur um stund“, tilhoggnum steini við enda stígsins.

Hringrásin endar svo á torginu við fótabaðið.

 

Afmörkun hverasvæðis er óbreytt nema við Háahver og meðfram göngustíg að tjaldsvæði. Hægt er að fara út fyrir afgirt hverasvæðið á tveimur stöðum í Laugarfjalli,. Þaðan liggjaútivistarstígar um fjallið, sem leiða að útsýnisstöðum, tjaldsvæði ogbænum Laug.

Gert er ráð fyrir að Laug verði áningarstaður með kaffihúsi og baðhúsi aftan við húsatóftina.

Stígakerfið er því samhangandi net sem tengir alla staði sem snúa að þjónustu ferðamanna á svæinu.

Efnisval og tæknilegar lausnir
Aðalstígurinn er gerður úr 8 cm þykkri trefjasteypu sem situr ofan á járnagrind. Grindin er borin uppi af stálbita sem er lyft frá jörðu. Styrkur stálbitans gerir það að verkum að hægt að nota færri undirstöður, sem kostar minna jarðrask. Gert er ráð fyrir að leggja snjóbræðslu  í steypta stíginn. Meðfram aðalstígnum er leiðandi armur með stálþræði sem undirstrikar að ekki megi fara út af stígnum. Áhorfendasvæði við Strokk er einnig úr trefjasteypu, sem og önnur útskot við hverina á meginleiðinni.
Armar ganga út úr aðalstígnum með reglulegu millibili. Milli þeirra er strengdrur stálþráður sem undirstrikar að ekki megi fara út af stígnum. Þetta er gert til að hlífa viðkvæmum gróðri og jarðmyndunum á svæðinu og til að vernda gesti gagnvart hættum.
Lýsing er undir aðalstígnum og markar brúnirnar á honum, án þess að lýsa í augu fólks eða trufla stjörnu- og norðurljósadýrð.  Á sama hátt verður gert ráð fyrir óbeinni lýsingu á torginu við þjónustuhúsið ásamt götulýsingu undir brúnum

Nöfn á helstu hverum eru skorin út í gegnum kortenstálplötur sem felldar eru í göngustíginn og eru hluti af honum.

Timburstígarnir eru bornir uppi af steypueiningum sem liggja á yfirborðinu en eru ekki grafnir í jörðu. Þannig má auðveldlega færa þá til.

Setbekkir á svæðinu verða einfaldir, látlausir og úr skógarviði úr nágrenninu.


Áfangaskipting

Skipulagstillöguna má framkvæmaí nokkrum áföngum:

  1. Leggja stígakerfið innan hverasvæðisins og skapa hringrás.
  2. Færa bensíndælu og fækka innkeyrslum að þjónustusvæði.
  3. Taka alla bílaumferð burt fyrir framan þjónustubyggingu og skapa torg, sem markar sér leið yfir þjóðveginn að nýju hringleiðinni.
  4. Byggja veginn sunnan við þjónustubyggingu, þegar íbúðarhús flyst.
  5. Lækka þjóðveginn, byggja brýrnar. Leiða má umferð um nýja veginn á meðan.