Image Image Image Image Image
Scroll to Top

To Top

Verk

Lókal glóbal – Hæg breytileg átt

“Hæg breytileg átt” var verkefni um nýjar hugmyndir um vistvænni, samfélagsmeðvitaðri, hagkvæmari og framsæknari íbúðarkosti fyrir Reykjavík.  Lókal Glóbal verkefnið var eitt af fjórum tillögum í þróunarverkefninu “Hæg breytileg átt”, en að því stóðu Hönnunarsjóður Auroru, Hönnunarmiðstöð, Reykjavíkurborg, Samtök Iðnaðarins, Félagsbústaðir, Búseti, Félagsstofnun stúdenta, Upphaf fasteignafélag, Listaháskóli Íslands og Velferðarráðuneytið.

Lókal Glóbal hópurinn var þverfaglegur, en ásamt DLD voru A2F arkitektar, Jökull Sólberg Auðunsson vefhönnuður og Andri Snær Magnason rithöfundur

Hér má sjá vefsíðu Lókal Glóbal hópsins og fyrir neðan vídeó sem sýnt var ásamt innsetningu á Hönnunarmars árið 2015.  Hér má einnig sjá vefsíðu verkefnisins “Hæg breytileg átt”

Saga úr daglega lífinu
Sigríður: Góðan dag. Mig vantar íbúð.
Óli: Já, hversu stóra.
Sigríður. Já það er vandinn. Ég er í sambúð með Jóni sem á tvö börn sem eru hjá okkur aðra hverja helgi. Svo er ég með barn af fyrra hjónabandi sem er líka hjá okkur aðra hverja helgi þannig að mig vantar íbúð sem er stundum með þrjú svefnherbergi en stundum með eitt.
Óli (hikandi): Já – ég skil. Svona eins og harmónika?
Sigríður: Já einmitt, það er reyndar mikil harmónía í okkar fjölskyldu en þetta er einmitt málið. Ég hef ekki efni á þriggja herbergja íbúð alltaf – en ég hefði efni á því að minnsta kosti aðra hverja helgi.
Óli: Akkúrat.
Sigríður: Já og svo er ég mjög hrifin af garðrækt. Ég vil búa í blokk en samt vil ég hafa garðskika. En vandinn er samt sá að ég fer stundum út á land sem fararstjóri þannig að stundum hentar mér ekki að hafa skika. En Jón myndi alveg vilja hænur og hafa fersk egg, hann kynntist því í Hollandi.
Óli: Og hvar ætti skikinn að vera?
Sigríður: Ef ég mætti nota bílastæðið væri það fínt. Ég er komin í svona deilibílakerfi, ég nota bara bíl þegar ég þarf á honum að halda?
Óli: Deilur um bíl?
Sigríður: Skiptir ekki máli. Og svo fer ég í nám í haust og myndi vilja vinna annarsstaðar en við eldhússborðið – það væri ekki verra ef það væru einhver rými þarna til að vinna, jafnvel með öðrum í skemmri tíma.
Óli: Þannig að þú vilt ekki kaupa vinnuaðstöðu, þú vilt hænur og garð á bílastæðinu og harmónikuíbúð sem stækkar og minnkar?
SIgríður: Já nákvæmlega! Áttu svona íbúð?
Óli: Ertu að hringja í rétt númer?
Sigríður: Já og ég gleymdi einu – ég er í verkefnum erlendis allt upp undir hálft ár í senn. Það væri fínt ef ég gæti leigt út íbúðina til skamms tíma og jafnvel fengið sambærilega íbúð erlendis. Ég þoli ekki hótel skilurðu. Og svo mætti þetta vera nærri opnu svæði, eins og Central Park í New York og það má gjarnan vera leikskóli mjög nálægt og strætó og hjólastígar og …

*************
Þessi örsaga varpar örlitlu ljósi á hugmyndavinnuna sem fór fram í brainstorminu á bak við Local Glóbal. Við veltum fyrir okkur hvort íbúðir í dag og framtíðinni gætu komið til móts við sveigjanleg fjölskyldumynstur, ólík búsetuform og nýja tækni. Við veltum fyrir okkur hvort nýtt húsnæði ætti að taka tillit til nýjustu þekkingar um ástand jarðar og auðlinda hennar.
Á meðan vísindamenn frá fremstu háskólum heims bera okkur óyggjandi niðurstöður um bráðnun jökla, súrnun hafsins, útdauða dýrategunda eða versnandi vatnsbúskað þá er eins og samfélagið bregðist ekki beint við þessum niðurstöðum. Menn halda áfram að hanna borgir, byggingar og innviði sem gera ráð fyrir endalausum vexti á endanlegri jörð. Við teljum að það sé siðferðilega rangt að skipuleggja og byggja á okkar tímum – án þess að taka tillit til þessara þátta.

Á sama tíma hafa komið upp ýmis ,,megatrend” sem koma í raun á óvart og ganga þvert á það sem við hefðum ímyndað okkur í nútíma ,,hræðslu og neyslusamfélagi”. Deilihagkerfi hafa sprottið upp þar sem menn bjóða ókunnugum að leigja hjá sér herbergi, gista á sófanum, menn deila bílum, reiðhjólum og nýta sér samskiptatækni til að koma notuðum hlutum í umferð. Frístundabanki er af sama toga þar sem hægt er að fá lánaðar græjur í stað þess að þurfa að eiga allt sjálfur og hýsa það með ærnum kosnaði í geymslum.
Öldin okkar verður vonandi öld deilihagkerfisins og samkenndar í stað einstaklings og gróðahyggju. Í Bandaríkjunum er deilihagkerfið orðið 1/6 hluti hagkerfisins. Sagt er að deilihagkerfið dragi úr hagvexti, er það ekki bara gott? Hagvöxtur mælir ekki endurnýtingu, né orkusparnað, að ganga á auðlindir heimsins eykur hagvöxt. En deilihagkerfið eykur líka jöfnuð, fleiri hafa efni á að ferðast sem dæmi og þeir kaupa líka latte þó þeir dvelji ekki á hóteli.

Við sjáum líka önnur trend koma upp. Úrgangslausir veitingastaðir, matjurtagarðar inni og úti, borgargarða, auknar hjólreiðar og hugmyndir um sjálfkeyrandi bíla. Aukin meðvitund um uppruna og hollustu matvæla og rekjanleika og fair trade viðskipti. Slow food í stað fast food.
Í hnotskurn
Landamæri eru að hverfa í hugum fólks og vitundarvakning á mikilvægi hagræðingar og samnýtingar að ryðja sér til rúms, deilihagkerfið er komið til að vera. Fjölskylduform taka á sig margar myndir og hefðbundin landamæri íbúða og atvinnu að verða óljós.

Í tillögu Lókal glóbal er hnattrænt tölvutækt húsnæðiskerfi þróað, þar sem notandinn byggir upp eigið búsetuform, eftir þörfum og kostnaðarvitund. Notandinn tilheyrir ákveðnu samfélagi og verður meðvitaður um hvar hann vill hagræða. Með áherslu á lýðheilsu og vellíðan í daglegu umhverfi, matvælaræktun, sólrík og skjólgóð svæði var unnið með samband Múlanna og Laugardals á þróunarás borgarinnar.
Múlarnir eru staðnað svæði, nánast gróðurlaust og fremur óvistlegt og þarfnast sárlega endurnýjunar. Við teljum að inngrip inn í svæðið sem færir Laugardalinn upp á Múlana og byggðina við Háaleiti niður í Laugardalinn vera mögulega lækningu á þessu ástandi.