Image Image Image Image Image
Scroll to Top

To Top

Verk

On 22, Sep 2015 | No Comments | In | By Dagný

Laugavegur

Árið 2014 var DLD í samstarfi við teiknistofuna Arkiteó valin til þátttöku í lokaðri hönnunarsamkeppni um útfærslu Laugavegar í Reykjavík .
Hér má sjá niðurstöðu keppninnar

Laugavegur – gata með meiru
Greinargerð með tillögu

Laugavegur 23. Júlí 2017

Við sjáum fólk á rölti milli verslana og veitingastaða, og aðra sem eru að taka sér hlé frá verslun og vinnu og fá sér fótabað. Erlendir ferðamenn skemmta sér við að ferðast á fjarlægar slóðir með aðstoð green screen og spjalla við vini sína hinum megin á hnettinum. Á legubekk liggur aldrað skáld og hlustar á sögu, við hlið hans er unglingur að hlusta á tónlist.

Við göngum inn á Laxnestorg, þar sem skáldið fæddist. Þar situr alls konar fólk og gluggar í bækur. Og á þvottakonutorgi komumst við í snertingu við heita vatnið sem er jú ástæðan fyrir því að Laugavegurinn var lagður á sínum tíma. Heita vatnið skapar dulúðuga stemmningu í götunni, og út úr einum bakgarðinum stingur trópískt gróðurhús sér fram í götumyndina og lokkar okkur inn. Bakgarðar hafa öðlast nýtt líf sem dvalarsvæði af ýmsum toga en í þeim dettur maður inn í gömlu Reykjavík þar sem hús og byggðamynstur standa á aldargömlum merg. Bakgarðarnir eru eins og lungu svæðisins með gróðri sínum, og húsunum gefa þeir innsýn í gamla tíma.

Aftur förum við inn á Laugaveg í iðandi mannlífið. Þráðlaust samband er í götunni og hægt að ná sér í upplýsingar af ýmsum toga sem tengjast menningarlífi Reykjavíkur. Gróður skapar hlýlegt yfirbragð og alls staðar er stutt í notalega áningastaði þar sem gaman er að staldra við. Við sjáum börn hlaupa örugg og frjálsleg um, þau sækja í leiksvæðin sem eru felld inn í hönnun götunnar með reglulegu millibili. Öðru hvoru fá þau sér sopa af svalandi drykkjarvatni, en bæði heitt og kalt vatn spila lifandi hlutverk í götumyndinni.

Á Vörðutorgi er hljómsveit að spila, og litlu ofar má heyra ljúfa tóna og hlátur berast úr litlum bakgarði. Gatan spriklar af þeirri sköpunargleði sem Reykjavíkurborg er löngu orðin þekkt fyrir. Hvar sem litið er má sjá innfædda og gesti að njóta lífsins og spjalla saman, en það er einmitt þessi afslappaða og notalega stemmning sem laðar fólkið til sín í verslunarleiðangra og á veitingastaði.

Við kveðjum Laugaveg framtíðarinnar og bregðum okkur aftur til okkar tíma og skoðum hvernig hægt er að láta þennan framtíðardraum rætast.

Meginmarkmið tillögunnar er að:

  • skapa götu fyrir fólk til að dvelja í og njóta, með áherslu á gangandi vegfarendur
  • búa til upplifanir og hughrif sem verða einstök fyrir þennan stað og vekja athygli á heimsvísu
  • byggja á sögunni, landsins gæðum og menningu
  • með yfirborðsmeðhöndlun, efnisvali, mubleringu og gróðri verði sköpuð heildræn upplifun
  • að tillagan styðji við og efli verslun, veitingarekstur og þjónustu
  • að fylgja reglum um algilda hönnun eftir mætti

Konsept – tillaga
Til heiðurs þvottakonunum sem báru þungar byrðar að og frá þvottalaugunum, leggjum við mynstraðan ”löber” sem mynnir á handverk kvenna. Löberinn myndar módúl sem heldur utan um það sem gerist í göturýminu. Heitt vatn sem vísun í laugar og þvotta og rennandi yfirborðsvatn spilar einnig stórt hlutverk. Þannig mun heitavatnið bæði verða nýtt ofan -og neðan jarðar. Gatan er í einum fleti á milli veggja bygginganna, og sendir þannig þau skilaboð að enginn einn ferðamáti er rétthærri en annar og auðvelt aðgengi er fyrir alla þvert á götustefnu. Göturýmið deilist í þrjár mismunandi sónur, búðargluggaleiðin, þar er flæði inn og út úr byggingum og gönguhraði hægur, í miðju götunnar er annars vegar dvalarsvæði og hins vegar bíla, hjóla og göngusvæði, bíllinn fær að læðast í gegn á ákveðnum tímum, en þarf að taka tillit til hinna. Í þessari sónu verður auðveldara að ganga rösklega. Gatan verður ekki merkt fyrir sérstaka ferðamáta en hönnunin stýrir þessari hegðun. Blandaða sónan er gegnumgangandi skuggamegin í götunni og hlykkjast í samræmi við skuggavarp.

Í tillögunni er unnið markvisst með sólarsvæðin á Laugavegi, á þeim eru útisvæði veitingastaða og torgin með mismunandi innihaldi. Gróður skapar margbreytilega upplifun, hlýleika og árstíðabundna stemmingu. Mublurnar í göturýminu eru fjölhæfar, þær geta verið sæti, jafnframt hjólagrind, gróðurbeð og jafnvel svið. Laugavegurinn lifir tvöföldu lífi að nóttu eða degi, þar spilar lýsing stórt hlutverk.

Torgin
Ef gengið er upp Laugaveg komum við fyrst að Vörðutorgi, nýju sólríku torgi á mótum Skólavörðustígs og Laugavegar. Það er stærsta torgið og er gert ráð fyrir að meiri mannfjöldi geti komið þar saman. Fjölhæf mubla myndar jafnframt svið, þar sem hljómsveitir og listamenn geta troðið upp. Fjölnota bekkur með grunnu fótabaði býður þreyttum fótum að lauga sig. Bekkir á brautum geta færst inn í göturými þegar bíllinn er ekki. Veitingastaðir við torgið, styðja vel við mannlífið.

Hljómalindartorgið er næst, með áherslu á að njóta veitinga úti, og leikrými yngstu barnanna.

Skemmtilegar fjölnota mublur verða á vegi okkar, við Kirkjuhúsið eru legubekkir þar sem hægt er að íhuga eða hlusta á sögur og tónlist. Auk þess eru tvö minni fótaböð á leiðinni að Frakkastíg. Við Laxnestorg, blasa við okkur sæti með þekktu mynstri Laxnesbókanna á hliðunum, inni í þeim er falið útibókasafn. Lifandi efni um skáldið er í porti við torgið. Frakkatorg er jafnframt krakkatorg, lítið leiksvæði er falið í útfærslunni. Bekkir á brautum geta lokað götunni fyrir bílaumferð.

Þvottakonutorg er við Bónus, þar verður jafnfram grænmetis -og blómamarkaður á sumrin. Dvalarsvæði eru við spegiltjörn, með heitu vatni. Tjörninni er örlítið lyft frá jörðu og rennur vatnið fram af brúninni. Á móti er port tileinkað þvottakonunum, hægt er að fá sér kaffisopa inn á milli drifhvíts þvotts í garðrýminu.

Síðasta torgið er við Laugaveg 77 þar sem nú er komin bókabúð og kaffihús. Falleg tjörn er á torginu og veitingaaðstaða. Auk þessara torga eru fjöldi veitingastaða á leiðinni, þar sem hægt er að njóta veitinga utandyra.

Portin
Við trúum því að portin eigi eftir að öðlast skemmtilegt innihald og bendum á nokkur sem gaman væri að virkja. Við byrjum aftur við Vörðutorg, fyrsta port er Leikhúsportið á vinstri hönd í átta að þjóðleikhúsinu, þar má bregða sér í ýmis hlutverk, beint á móti er torgið við Timberland . Vegamótatorg og göturýmið er orðið hluti af göngugötu Laugavegar, sömuleiðis Smiðjustígur og Barónstígur að Skólavörðustíg. Tónleikaport er lítið port á móti Hljómalindarreitnum, nýtist fyrir minni tónleika.

Í nýju deiliskipulagi á Hljómalinda, Brynju- og Frakkastígsreit, verða hálfopinber garðrými sem tengast Laugavegi.

Bakgarður við Dillon er í notkun, en í bakrými við 35 og 37 verður gróðurhús með Tropical stemmingu, fallegum garði með te jurtum og ýmsum ætum plöntum. Því næst er Þvottakonu portið og þakgarður við Laugaveg 71og 73 og að lokum port á bak við 85-89 með borgarbúskap, matjurgaræktun og hænum.

Vatn
Yfirborðsvatn er leitt í hellulagðri rennu í götunni, rennan afmarkar jafnframt svæðið þar sem bíllinn má læðast í gegn á ákveðnum tímum.

Reglulega stoppar vatnið aðeins við í grunnum tjörnum og eru möguleikar þar að setja í gang vatnsbunur og búa þannig til rennsli í góðviðrisdögum.

Heitavatnið er bæði nýtt í snjóbræðslu og á völdum stöðum á yfirborði, fyrir fótaböð og heita tjörn.

Gróður
Gróðurinn samanstendur af stökum götutrjám og gróðurbeðum með blómstrandi tegundum. Hann skapar árstíðabundna upplifun, liti og veitir rýminu hlýlegt yfirbragð.

Svo það megi heppnast, leggjum við áherslu á útfærslum á vaxtarskilyrðum gróðurs. Þar sem tré standa stök í göturými, gerum við ráð fyrir um 1,8×1,2m gegndræpu yfirborði, sem einnig má ganga ofan á. (þekkt aðferð erlendis). Moldarlagið er upp á 60 cm og moldarblandin grús er þar undir sem teygir sig inn í burðarlagið. Gróður í kössum hafa sama frágang undir yfirborði. Kassarnir eru ákveðin vörn við ágangi í leiðinni. Í sumum tilfellum getur einnig verið undirgróður við stöku trén.

Við leituðum ráða okkar helstu sérfræðinga varðandi stöku götutrén og var bent á að nota linditré (Tilia sp. Siivonen) finnskt yrki. Linditré eru ein harðgerðustu og algengustu götutré sem völ er á í nágrannalöndum okkar, og nú hafa menn reynt þau aðeins hér og telja að þau myndu þrífast við þessar aðstæður. Uppistaðan yrði Lindin í stöku trjánum, en einnig myndu tegundir eins og álmur, ölur, skrautreynir, alpareynir og heggur bregða fyrir á völdum stöðum.

Í gróðurkössum sjáum við gjarnan blómstrandi runna-tré, eins og sýrenur, undir þeim væri plantað sígrænum og hálf sígrænum fjölæringum, auk vorblómstrandi laukplantna.

Þyrnilausar klifurrósir gætu líka vaxið eftir grind í sumum kössunum, eða við valda,veggi eða brunagafla ásamt bergfléttu. (sjá einnig tegundir á plansa)

Sumarblóm yrðu í pottum á völdum stöðum, út frá mynstri götunnar.

Efnisval – götugögn
Grunnliturinn í götumynstrinu er sólgulur litur, sem gefur hlýlegt og bjart yfirbragð, en gráar hellur teikna upp mynstrið. Hellurnar eru úr forsteyptum einingum og gengur módúllinn upp í 30x30cm, reiknað er með 6-8 cm þykktum eftir þörfum. Náttúrusteinninn sem er núna á neðri hluta Laugavegar verður endurnýttur meðfram húshliðum og tröppum og grásteinspollar verða endurnýttir í hliðargötum til að stýra umferð þvert yfir Laugaveginn.

Mublur eru ýmist smíðaðar á staðnum, eða forsteyptar einingar með viðarklæðningu. Gert er ráð fyrir sorpflokkun, fyrir flöskur, pappír, plast og öðru rusli. Sígarettustubbahús eru einnig hluti af sorpútfærslu.

Lýsing
Götulýsing Lampar  eru staðsettir í 4-5m hæð á  tréstólpa . Á þeim er dimmanlegur led ljósgjafi með góðri dreifingu og  lámarksglýju, vottaðir samkvæmt Evrópustöðlum.

Torglýsing Ljósgjafar eru staðsettir í mismunandi hæð á tréstólpa eftir þörfum. Blanda af þröngum, breiðum og víðum geislum  eftir því hvað á lýsa upp. Á völdum stöðum eru kastarar með “goboi” sem kasta mynstri á veggi og hluti. Lýsingin upfyllir kröfur um götulýsingu ásamt því að ná fram stemningu á torgum þar sem birta yrði ekki flöt. Hægt er að setja á stýringu til dimmingar, og forrita kveikingar eftir birtustigi og opnunartíma. Ekki er þörf á sama birtustigi í jólaversluninni seinnipart dags eins og um nótt þegar hættustig er meira. Á verslunartíma er birtan tónuð niður svo verslunargluggar njóti sín og sköpuð kósý stemning.

Möguleikar eru margir þegar kemur að stýringum og ledlýsingu, á ákveðnum svæðum gætu vegfarendur haft áhrif á lýsingu í gegnum app, breytt um ljóslit á vegg eða bekkjum

Nauðsynlegum búnaði s.s spennum er komið fyrir hjá ljósgjafa eða eins nálægt og aðstæður leyfa.

Aðgengi allra
Gert er ráð fyrir leiðandi línum í hellum fyrir sjónskerta. Lang flest hús við Laugaveg eru með eitt uppstig. Lagt er til að það verði leyst með litlum rampa sambærilegum og við Aurum búðina í Bankastræti. Þar sem kjallaratröppur eru, eða aðrar erfiðar gamlar tröppulausnir, sem ekki er unnt að leysa varanlega, verði útfærð leið eins skytturnar 3 nefna með að hægt sé að hringja bjöllu og fá rampa felldan út þegar á þarf að halda.

Umferð Hönnunin er leyst þannig að bíllinn getur sitrað í gegnum allt svæðið og frá Snorrabraut að Frakkastíg er einnig hægt að leggja sunnan megin í götunni meðfram vegi. Við höfum hins vegar trú á að vilji verði fyrir því að einungis verði erindiskeyrsla að morgni í framtíðinni og höfum þess vegna leyst verkefnið þannig að auðvelt er að taka bílinn út úr menginu án þess að breyta þurfi hönnuninni.