Image Image Image Image Image
Scroll to Top

To Top

Verk

Brýr við Elliðaárvog

Tillaga DLD og samstarfsaðila í samkeppni Reykjavíkurborgar um  göngu -og hjólabrýr við Elliðárvog árið 2012.
Arkitetkar: A2F arkitektar
Verkfræðingur: Sigurður Gunnarsson

 

Laxaganga með brúa-sporðaköstum
Greinargerð með tillögu

Inngangur
Svæðið sem um ræðir er ein af náttúruperlum Reykjavíkur, upphaf eða endapunktur Elliðaárdalsins, sem er einstakur fyrir margar sakir m.a fyrir gjöfula laxveiðiá í miðri borg.
Geirsnefið er manngert og hefur verið mikið inngrip í vistkerfi fjörunnar og árósanna á sínum tíma. Í dag er mikið fuglalíf, sérstaklega við vestari ósinn, þar sem fjarar langt upp í hann og stórir hópar fugla koma þar í ætisleit. Eystri kvíslin er sú leið sem laxinn velur upp í árnar og er hann að ganga frá júní til september.
Mikill fjöldi fólks með hunda notar Geirsnefið í dag enda er það eina hundaviðrunarsvæði borgarinnar þar sem leyfilegt er að sleppa hundum lausum. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur er svæðið austanmegin við árnar merkt sem blönduð byggð og ekki er ólíklegt að svæðið vestan við árósana verði síðarmeir íbúðabyggð.
Vænta má í því samhengi að Geirsnefið verði í framtíðinni enn mikilvægara sem útivistarsvæði í nágrenni þéttrar íbúðabyggðar.
Meginhugmynd og áherslur
Heildarmynd tillögunnar er tilvísun í laxagöngu með sporðaköstum, þar sem uggarnir eru áningastaðirnir.
Grunnhugmynd tillögunnar er að aðgreining hjólaleiðar og gangandi myndi þræði í vef sem sameinast yfir brýrnar sem í planlegu kvíslast um eins og áreyrar. Stígarnir fylgja landinu í hæð í mjúkum bylgjum, sem þó uppfylla fremstu kröfur um hámarkshalla.
Brúin er hluti af þessu landslagi, hún er óður til laxinns, þar sem hún svífur létt yfir árnar í mjúkum boga eins og búkur fisks og burðarvirkið minnir á beinagarð.
„Brúa-sporðaköst“ gæti verið heitið á því sem gerist á Geirsnefinu á milli brúnna. Þar er hjóla- og gönguleiðin aðgreind í hæð og „uggarnir“ áningastaðirnir felldir inn í landslagið, ýmist til suðurs eða í útsýnisátt til sjávar. Hérna tengjast líka gönguleiðir á Geirsnefinu við brýrnar, en núverandi leið fer óhindruð undir þær.
Göngu –og hjólaleiðirnar tengjast núverandi stíganeti austan og vestan megin við árnar, en einnig væri mjög áhugavert að skoða tengingu í átt að Kleppsmýrarvegi yfir voginn þar sem hann er mjóstur frá Snarfara svæðinu, til að stytta leiðina meðfram sjávarsíðunni og njóta lengur náttúrunnar á þessari leið.
Ef Geirsnefið á að nýtast sem hundaviðrunarsvæði um óákveðinn tíma, væri hugsanlegt að girða við brekkurótina á móti suðri og hafa hlið þar sem stígarnir tengjast svæðinu.
Með breyttri landnotkun eins og gefið er til kynna í Aðalskipulagi myndu stígarnir og brýrnar einnig falla vel að bæjarmynd og umhverfi .

Vefurinn – brú, stígur, áning
Nálgun og flæði
Óður til laxins, léttleiki, einföl uppbygging, fljótleg í uppsetningu, og framkvæmd sem veldur hvað minnstu raski á staðnum, er megin hugsunin í hönnun brúnna. Flæðið yfir þær hafa ólíkar áherslur, annars vegar umferðaráhersla hins vegar útivistargildi. Áherlsan fyrir hjólastígana er rúmir beygjuradíusar og þægileg planlega í mjúkum bylgjum, þar sem hægt er að halda ákveðnum hraða án hindrana. Stígarnir að brúnni eru vel aðgreindir og forðast að vera með þveranir á hjólaleiðina.

Staldrað um stund
Gönguleiðin er með áherslu á útivistargildið, áherslumunur yfir brýrnar er t.d í handriðinu, þar sem göngustígs megin er handriðið lægra og gert ráð fyrir að hægt sé að halla sér fram á það og horfa ofan í ána. Hugsa mætti sér að austanmegin yrði komið fyrir sjónpípu ofan í ána til að fylgjast með laxinum, en að vestanverðu gæti verið staðsettur kíkir fyrir fuglaskoðun. „Uggarnir“ áningastaðirnir á Geirsnefinu eru felldir inn í landið þannig að bakstuðningur er í brekkunni, þar sem kantur styður við setsvæðin og hægt er að tylla sér niður sunnan megin í sólinni eða í norð austur með útsýni yfir sjóinn og Esjuna. Tré og gróður skapar skjól og hlýlega stemmingu fyrir þá sem velja að staldra þar við.
Á sama svæði neðar í plani er einnig áning fyrir hjólandi umferð, til að staldra við og virða fyrir sér útsýnið. Áningin er útsýnisstallur sem er afmarkaður með handriði sömu gerðar og brúnna.

Bygging brúar
Form og framkvæmd
Brýrnar spanna annars vegar 38m yfir austur kvíslina, en 52m yfir þá vestari, breiddin í miðju er 4,5m en víkkar hún út til endanna í 6m, þar sem leiðirnar byrja að aðskiljast. Handriðin eru hjólamegin 1,4m há, en gönguleiðarmegin eru þau 1,2m.
Þar sem bæði gangflötur og togband mynda boga er um náttúrulegt form eða svokallaðan „minimal-strúktúr“ að ræða. Vegna þessa er brúin í eðli sínu bæði mjög létt og stíf. Fyrir utan hin jákvæðu áhrif sem þetta hefur á lækkun byggingarkostnaðar þá einfaldar þetta einnig uppsetningu brúarinnar til muna því vel má hugsa sér að byggja brúnna á verkstæði og hífa hana í einu lagi á brúarstæðið.

Grundun og inngrip
Við val burðarkerfis var lögð megin áhersla á einfalt og skýrt kerfi. Bogi brúarinnar er gerður úr einföldum jafnstórum forsteyptum einingum og myndar þrýstingur bogans einfalt jafnvægi við bogastrenginn. Í raun eins og örvabogi þar sem mörgum örvum er miðað samtímis. Vegna þessa jafnvægis er grundun brúarinnar mun einfaldari og minna inngrip en ef þrýstingur bogans glennti sig inn í sitt hvorn árbakkann.
Viðhald og eftirlit
Þar sem brúardekkið er alltaf undir þrýstingi myndast nánast engar beygju eða togsprungur í steinsteypunni og viðhaldskostnaður er því í algeru lágmarki. Auðvitað þarfnast bogastrengurinn venjulegs eftirlits en það er mjög einfalt og takmarkað að umfangi – eins og strengurinn sjálfur.

Efnisval
Litir og áferðir
Gert er ráð fyrir að hjólaleiðin verði malbikuð í rauðum lit til aðgreiningar frá gönguleið og að forsteyptar einingar á hjólaleiðinni yfir brýrnar verði með ryðguðum stálflögum til að gefa rauða litaáferð yfir brýrnar.
Á göngu og hjólaleiðinni næst brúnnum verða steyptar rendur sömu áferðar og brúnna í ákveðnum takti til að gefa til kynna að leiðir sameinist og brúin sé framundan. Sömuleiðis verður leikið með þessa áferð á áningastöðunum.
Handriði brúnna er úr cortenstáli en handlistar eru úr íslensku lerki sem fær að grána. Handlistinn á brúnni göngustígsmegin býður upp á að staldrað sé við og hægt sé að halla sér upp að honum.
Lerkið verður einnig notað í útfærslum á setsvæði í samspili við kortenstál og forsteyptar einingar. Áhrifin í efnisvalinu eru sótt úr umhverfinu, í hafnarmannvirki og iðnað ásamt nátúrunni sjálfri.

Lýsing
Yfir brýrnar verður led-lýsing undir handlistum sem beina jósinu á brúardekkið án þess að lýsa ofan í ána.
Mikilvægt er að góð lýsing sé á hjólaleiðinni þar sem hún þjónar umferðaleið. Gert er ráð fyrir að hefðbundir ljósastaurar séu á leiðunum að brúnum, en lýsingin verði lægri og felld að útfærslum á áningastöðum og brúm þar sem hún fer yfir Geirsnefið

Lokaorð
Með tengingu yfir ósana opnast fyrir nýtt flæði gangandi og hjólandi ekki bara yfir ósana heldur einnig að útivistarleiðum í Elliðaárdalnum. Framkvæmdin mun því öðlast enn meira gildi með breyttum áherslum á landnotkun og uppbyggingu nágrannasvæðisins sem íbúðabyggðar. Brýrnar eru því upptaktur að fegrun og uppbyggingu svæðisins, með vellíðan borgarbúa í huga ekki síst með bættum hjólasamgöngum.